þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Undur strokleðursins! 

Í gær tók ég smá powernap uppi í sófa meðan Martin eldaði kvöldmatinn. Þegar ég svo vaknaði og byrjaði að gæða mér á herlegheitunum, þá kitlaði mig svo agalega í puttana að ég hreinlega gat ekki beitt hníf og gaffli, og þurfti þess vegna að bíða dágóða stund þar til allt var komið í eðlilegar horfur.

Hérna í gamla daga þá átti ég það til að fá þetta "puttakitl" ansi oft. Ég get nú ekki sagt að ég hræðist það, en afturámóti er þetta alveg afskaplega óþægilegt þegar ég þarf að beita höndunum eitthvað.

Sem var akkúrat það sem gerðist einn góðan veðurdag í grunnskóla:
Það var nefnilega þannig að við vorum í stafsetningartíma og hann fór þannig fram að Erna umsjónarkennari las upp einhvern textabút og við hin skrifuðum niður eftir henni.
Nema hvað, að þá gerðist það að ofannefnt átti sér stað, og ég hreinlega gat ekki haldið almennilega utan um blýantinn og þarafleiðandi skrifaði ég eins og einn 5 ára með parkinsons!
Í lok tímans þá áttum við að skila stílunum og fara út í frímínútur. En mér fannst það alveg út í hött að afhenda minn í þessu ástandi og skrifaði því skilaboð til Ernu kennara neðst á síðuna:
"P.s: Afsakaðu hvað ég skrifaði illa, en mig kitlaði bara svo í fingurgómana!!!"

Að sjálfsögðu - að SJÁLFSÖGÐU - þá gerðist það að einhver af bekkjarfélögum mínum sá þessi skilaboð meðan verið var að safna saman stílunum, og gerði viðkomandi - í beinu framhaldi af því - óóóspart grín af greyið mér!!!

Guðrún vinkona, hafði legið heima með flensuna dagana áður, og fékk af því tilefni að vera inni í frímínútum þennan daginn.
Algjörlega DESPERAT hljóp ég til hennar meðan bekkurinn klæddi sig í útijakkana og þyrptist út, og bað hana plís - ó plís - að stelast í frímínútunum til að finna minn stíl og stroka út þessi lokaorð.
Guðrún, engillinn sem hún var (og er), var auðvitað ekki alveg á því að fara að gramsa í eigum kennarans - en þegar ég sagði henni að þetta væri matter of life or death þá sló hún að lokum til og sammþykkti.

Svo, 3 mínútum seinna, læddist hún um gólf með strokleðrið sitt ... og framkvæmdi!!!!


Já, þegar maður gerir asnalega hluti - og þá er sko gott að eiga góða vini sem leiðrétta þá fyrir mann!!!




This page is powered by Blogger. Isn't yours?