þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Sökum elli, þá er í skítahúsinu okkar hvergi að finna innstungur fyrir þvottavélar. Afturámóti er að finna, á jarðhæðinni, svokallað þvottaherbergi. Þangað niður þarf ég að dröslast á hverjum degi með fulla Ikea margnota-poka af drullugum fötum í annarri, þvottaefni og mýkingarefni í hinni, og ef illa stendur á prinsessunni minni, þá fær hún að fljóta með líka.

Og svo upp aftur!

Það er sjálfsagt til margt verra en þetta, og ég get svosum alveg lifað með þessu ..... þar til þvottavélin er búin að þvo!

Það er nefnilega þannig að innvolsið í þessu blessaða þvottaherbergi er ekki beint samsett úr gæðavörum og er þvottavélin svona gígantísk, eldrauð og einkar gömul industrial-vél, sem líkist við fyrstu sín einhverju sem hefur verið bjargað af sjávarbotni.
Þar sem er farið að síga á seinni hluta æviskeiðs vélar þeirrar, þá inniheldur hún ekki allar þær functions sem er að finna á langflestum nýmóðins vélum. Eitt af því helst stendur uppúr er fyrirbæri sem kallast centrifug (ég held það sé "þeytivinda" á íslensku). Þetta er s.s sá hluti sjálfs þvottsins þar sem að öllum rennblauta klæðnanum er þeytt eins og brjáluðum í þeim tilgangi að vinda hann duglega.

Hinsvegar í mínu blessaða þvottaherbergi stendur þessi þeytivinda sem sér fyrirbæri við hliðina á sjálfri þvottavélinni. Hún er einstaklega stór (næstum jafnstór og meðal ísskápur) og fyrirferðamikil elska, klædd járnklæðnaði, ekki þægileg fyrir augað og minnir allra helst á skólprör á sterum.

Mamma hans Martins sagði mér, áður en ég byrjaði að þvo í þessu herbergi, að ég yrði alltaf að fara ofsalega varlega þegar ég höndlaði þessa þeytivindu. Það væru nefnilega til dæmi um það að fólk hefði misst handlegg á að dýfa sér þarna ofaní,- og þess vegna yrði ég að passa mig rosalega vel að opna ALDREI lokið fyrr en allt væri búið - basta!

Það þarf varla að taka það fram, að það var með miklum vara sem ég stóð þarna við vinduna í fyrsta sinn og stappaði rennblautum þvottinum ofan í kvikindið. Með Isabellu í annarri hendinni, tróð ég hárinu mínu duglega ofan í hálsakotið á bolnum mínum, svo að það myndi alveg örugglega ekki festast í meðan leikar stæðu sem hæstir, og þarafleiðandi svo hausinn á mér myndi fjúka af. Kvíðin pressa ég lokinu niður og ýti á start og stend svo yfir vélinni í nokkrar sekúndur til að athuga hvort hún fari ekki af stað.

Og hún fór sko af stað, already!!!

Þvílíkir skruðningar, skal ég ykkur segja. Steraskólprörið byrjaði svoleiðis að nötra og sjálfa - sem og allt annað þarna inni í þvottaherberginu - og ég var viss um að lokið myndi poppa af og þeytast í gegnum herbergið eins og frisbee og skera mig á stóra bláæð - meðan restin af tækinu myndi leysast upp í frumeindir í gríðarlegri sprengingu og festast í mér allri eins og furunálar!
Ég sá þetta allt saman fyrir mér í Morgunblaðinu: fyrirsögnina, myndina og greinina!
Isabella greyið stirnaði öll upp og leit á mig í slefandi undrun, og án frekari pælinga þá hljóp ég eins og vitlaus manneskja fram á gang og alla leiðina út í andyri á blokkinni, og stóð og skýldi okkur báðu fyrir yfirvofandi sprengingunni!!!

Nema hvað, að það kemur kannski engum á óvart að ég lifði þessi ósköp af án frekari vandræða. In fact, þá róaðist nú vindan allsvakalega eftir nokkrar sekúndur og vatt svona líka bara rólega það sem eftir lifði (einhverjar 6 mínútur).
En það breytir því nú ekki að í hvert eitt og einasta skipti sem ég þarf að nota kvikindið, þá finnst mér sem himinn og jörð séu að fara að skella saman og ég er viss um að viðkomandi dagur verði minn seinasti.

Ég hef nú lært að taka þetta allt saman í sátt (eftir sérstaklega mörg sálfræði-session hjá Dr. Martini Larsen) og þetta kennir mér að meta það sem ég mun fá í nýja húsinu.

En ég hef líka lært annað: hætturnar leynast í hverju horni - og þó svo að maður verði ekki sprengdur í loft upp af múslima, þá þýðir það ekki að maður verði aldrei sprengdur í loft upp!!!!!!!!!!!




This page is powered by Blogger. Isn't yours?