miðvikudagur, apríl 05, 2006

Með víkíngsblóð í æðum, - en ekki vör! 

Ég skrapp upp í skóla í dag til að eiga fund með umsjónarkennaranum mínum. Það er svosum ekki frásögum færandi, nema hvað að ég tók strætó uppeftir.
Það er ekkert merkilegt við það heldur, fyrir utan það að rétt áður en kemur að mínu stoppi, þá sit ég í mínu sæti og ýti á takka-kvikindið. Ekki gat ég heyrt neitt *bing* og ekki gat ég heldur séð að "stop" ljósið yrði rautt. Svo að ég ýti aftur. Enn sá ég ekki neina breytingu, þannig að ég áleit að "stop" ljósið væri, indeed, rautt,... en útaf því hvernig sólin skein á skerminn, þá gat ég hreinlega ekki séð það.

Til vonar og vara, þá stend ég snemma á fætur,- ýti á annan takka, við annað sæti- meðan ég labba að hurðinni, og þar stend ég svo sallaróleg og bíð eftir að strætóbílstjórinn hægi á sér.
Þegar ég, hinsvegar, horfi á biðstöðina mína birtast og svo hverfa rólega aftur,... þá stekk ég til... segi "UUUUhhhhh.. !?!?! " og drífi mig að ýta á enn einn takkann.
Bílstjórinn lítur á mig og spyr: "Ætlaðirðu að fara út þarna?"
Ég svara játandi, og þá spyr hann mig hvort að hann megi ekki bara láta mig út þar sem hann var staddur þá stundina (einhverja 20 metra frá mínu stoppi). Aftur svara ég játandi.
Þá segir hann við mig: "Þú verður að ýta fyrr á takkann!!!!"

Ég stóð bara þarna eins og Ingjaldsfíflið, fann hvernig hjartað byrjaði að hamast umfram venjulegheit: "Jahh.. ég hélt nú að ég hefði ýtt á hann!" svara ég lágum og veikum rómi.... -hvít lygi- því ég VEIT að ég ýtti á hann: ÉG ÝTTI Á HANN 3 SINNUM !!!!!
"Greinilega ekki!" svaraði hann snúðugur og opnaði hurðina til að hleypa mér út!

---

Ó! Stundum getur maður verið svo lítill í sér.

Meðan ég gekk niður tröppurnar, þá fann ég dofann myndast í lófunum, svitann á enninu og hvernig neðri vörin á mér tók til að titra eins og vitleysingur!!!
Mig langaði mest til að hlaupa heim, henda mér undir sæng og grenja! Mér leið,-í alvörunni-, svo illa, að ég varð að berjast við að halda aftur af tárunum og var ekki nema hársbreidd frá því að hringja í pabba til að fá smá uppörvunarorð!
Hvað er að, spyr ég !?!?

Það er nokkuð greinilegt, að þó að það renni í mér hreinræktað víkingablóð - þá virðist það allavegana ekki ná út í vörina á mér,- því núna,- um 2 tímum síðar,- virðist hún ennþá vera að berjast við skjálftann !!!




This page is powered by Blogger. Isn't yours?